top of page

Skólastefnan er uppskriftin að árangrinum. Hún tryggir gæðaskóla og góða hæfni nemenda til að ná árangri að námi loknu. Skólastefnan er strangur vegvísir allra skóla sem starfa undir merkjum Telemakkusar.

 

Skólastefnan er mótuð af 25 ára starfsemi Kvikmyndaskóla Íslands sem skilað hefur þeim árangri að skólinn er kominn í hóp bestu kvikmyndaskóla í heimi. Fyrir 15 árum hafði nám við Kvikmyndaskóla Íslands ekki verið viðurkennt, einungis var boðið upp á dýr 3 mánaða námskeið og tekjur skólans árið 2000 voru 4 milljónir króna. Í dag eru árstekjurnar 250 milljónir króna og  skólinn býður upp á vinsælt og viðurkennt diplomunám í leiklist og kvikmyndagerð. Skólinn er viðurkenndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er viðurkenndur í hóp Cilect kvikmyndaskóla, sem eru alþjóðasamtök bestu kvikmyndaskóla í heimi.

 

Skólastefnan er ekki róttæk í þeirri merkingu að hún boði kennslufræðilegar byltingar. Hún glímir við sömu gildi og skólar hafa gert í þúsundir ára. Stefnan snýst fremur um samstillingu þeirra þátta í skólafræðum sem eiga best við þarfir nútímans. 

 

1. Námskráin. Hönnun hennar og stöðug kerfisbundin uppfærsla og þróun, er grunnur alls skólastarfs. Námskráin er heilög. Námskráin er lokað kerfi sem leiðir nemandann frá einu námskeiði til annars þar sem lokapunkturinn er fullnaðarhæfni á ákveðnu sviði. Mjög lítill sveigjanleiki er fyrir nemandann til að raða námskeiðum að eigin vild eða fyrir kennarann að fara út fyrir prógrammið. Námskráin á að tryggja að gæði skólastarfsins séu nánast óháð því hver nemandinn er eða kennarinn. Þetta kallar á að námskráin sé þrauthugsuð, byggð á mikilli þekkingu hæfustu kvenna og manna og sé stöðugt undir eftirliti og í kerfisbundinni endurskoðun.

 

2. Kennarinn. Meginreglan er sú að fáir eða engir fastráðnir kennarar eru við skólana heldur er unnið með fremsta starfandi fagfólki á hverju sviði, sem síðan er þjálfað til kennslu í ákveðnum námskeiðum. Mikil hreyfanleiki einkennir því kennaralið skólanna. Það fylgir því mikill slagkraftur að kennari hafi náð raunverulegum árangri á sínu sérsviði utan skólaveggja og sé ennþá virkur og starfandi. Reynt er að starfa með miklum fjölda kennara á öllum námsleiðum svo nemandi fái mörg sjónarhorn.

 

3. Nemandinn. Ávallt er reynt að vinna með eins stóra nemendahópa og mögulegt er án þess að það bitni á gæðum námsins. Telemakkusar skólarnir eru ekki elítuskólar þótt mikið sé lagt upp úr að námsgráðan sé traust staðfesting á þekkingu, færni og hæfni. Það eru þrjár meginástæður fyrir þessari stefnu: a. Við teljum að það sé rangt að hindra þann sem hefur áhuga og getu til að stunda ákveðið nám á grundvelli fjöldatakmarkana, ef þær eru eingöngu settar til að búa til útvalinn hóp. b. Valkerfi inn í nám eiga rétt á sér en þau eru alltaf mjög ónákvæm ef reynt er að meta hámarkshæfni. Þau geta hins vegar verið nákvæm við mat á lágmarkshæfni. c. Allir skólar reyna að finna afburðanemendur og snillinga. Líkurnar á að finna þá eru miklu meiri í stóru úrtaki heldur en smáu.

 

4. Kennsluaðferðin. Ávallt er reynt að hafa námið verkefnadrifið þar sem verkefnið er einstaklingsbundið og með einhverjum hætti sjálfstæð sköpun eða uppgötvun nemandans. Reynt er að láta nemandann fyrst nálgast kennsluefnið á skapandi hátt, síðan er handverkið kennt og að lokum fræðin. Kennslufræðilega nálgunin er alltaf í þessari röð, sama hver námsgreinin er: Sköpun, handverk, fræði. Geta nemandans til að hugsa og framkvæma á skapandi hátt er það sem mun ráða endanlegri hæfni hans. Þess vegna er lykilatriði að hefja vegferðina með því að nemandinn uppgötvi og þjálfi strax sköpunarhæfileika sína. Annað atriði er að þótt námið sé alltaf ferill sem leiðir til ákveðinnar niðurstöðu þá leggjum við áherslu á að enginn einn ákveðinn dagur er endilega merkilegri en annar. Hver dagur í náminu á að hafa sinn eigin mikilfengleik. Við viljum leggja áherslu á núið. Í þriðja lagi þá leggjum við áherslu á jafningjastöðu kennara og nemenda, þar sem kennarinn þarf sífellt að vera að læra af nemandanum. Upplýsingabyltingin hefur leitt af sér þá ótrúlegu staðreynd að í hverjum nemendahópi þá er líklegt að hver einasti nemandi hafi meiri þekkingu en kennarinn á einhverju ákveðnu sérsviði. Þessi staðreynd setur nýja vídd í allt skólastarf og getur haft mikil áhrif ef kennari kann að vinna með hana.

 

5. Verð og ábyrgð. Alltaf er reynt að hafa námið eins ódýrt og mögulegt er. Litið er á skólagjald nemenda sem fjárfestingu í skólanum og að skólinn beri sína ábyrgð á að þeir skili sér til baka með góðri ávöxtun. Þess vegna nýst skólinn um meira heldur en afhendingu náms, hann snýst einnig um raunverulegt utanumhald nemandans eftir að námi lýkur. Það getur verið með rekstri öflugrar atvinnumiðlunar, með aðstoð við stofnun fyrirtækja, eða með þátttöku í framleiðslu sem skilar útskrifuðum nemendum tekjum.

 

Allar þessar aðferðir hafa verið þróaðar og prófaðar í rekstri Kvikmyndaskóla Íslands síðastliðin 24 ár.

 

Eftirfarandi eru nokkrar útskýringar á þeim aðferðarfræðiþáttum sem mótaðir hafa verið í skólastefnu Telemakkusar og öll skólastarfsemi byggir á.

 

NÁMSKRÁIN
Markmiðið er alltaf að búa til svo skýra og vel útfærða námskrá, að það eitt að fara í gegnum prógrammið, tryggi hæfni og menntun útskrifaðs einstaklings. Sama hver nemandinn er eða kennarinn. Ferillinn er lokaður þar sem nemandi fer frá einu námskeiði til annars að lokapunkti, þar sem hann hefur hæfni til að vera „no mistake“ starfsmaður. Þessi tegund af námskrá gengur gegn þeirri hefð sem verið hefur innan háskóla undanfarin ár, þar sem stefnan hefur verið að opna námslínur, fjölga valmöguleikum og þverfaglegum brautum. Telemakkus tekur mið af skólakerfum stórfyrirtækjaskólanna og keppnisíþróttaþjálfun. Þar eru einstaklingar þjálfaðir og menntaðir af mikilli nákvæmni eftir skýrum ferlum til að öðlast staðfesta hæfni. Af slíkri nákvæmni og alvöru reynum við að hanna og þróa stöðugt vandaðri námskrár.

 

KENNARINN
Lausráðnir kennarar eru sífellt stækkandi hlutfall í kennsluliði háskóla. Telemakkus tekur þessa þróun alla leið því 95% kennara eru lausráðnir. Með þessu móti höfum við fullan sveigjanleika til að ná í fremsta fólkið. Það er fátt eins áhrifamikið fyrir nemanda eins og að fá kennara, sem er jafnframt og samhliða að vinna afrek á því sviði sem hann er að kenna. Lykillinn að árangri hjá öllum Telemakkusarskólunum er að vera með bestu kennarana.

 

NEMANDINN
Allir Tmakk skólarnir eru sem stendur eingöngu starfandi í grunnnámi háskólastigs. Nemendahópar eru stúdentar á aldrinum 19 til 25 ára. Leitast er við að 60-90% nemenda séu úr þessum aldurshópum. Einkavegur hefur þó víðara aldursbil.

 

KENNSLUAÐFERÐIN
Starfsemin og stefnan er sprottin upp af rekstri listaskóla, þar sem frumleg, fagleg og mikilvæg listsköpun er alltaf æðsta markmiðið. Þessi grunnur hefur síðan þau áhrif að nálgun við öll viðfangsefni í kennslu hefst með skapandi verkfærum, síðan er handverkið og að lokum fræðin.

 

VIÐSKIPTIN

Það er raunverulegt markmið Telemakkusarskólanna að hafa skólagjöld eins lág og mögulegt er. Hugsjónin er útbreiðsla þekkingar sem nýtist útskrifuðum nemendum til árangurs. Fjárhagslegir klafar sem lagðir eru á nemendur eru mjög takmarkandi gagnvart árangri. Einnig eru félaginu settar mjög ákveðnar reglur um meðhöndlun hagnaðar og áhersla er lögð á gagnsæi og opið bókhald. Þetta þýðir hins vegar ekki að Telemakkus sækist ekki eftir hámörkun fjárhagslegs hagnaðar, leiðin að því markmiði er hins vegar fyrst og fremst fólgin í að tryggja stöðugt nemendaflæði til mjög langs tíma, og með því að fjölga nemendum inn á þær brautir þar sem fjölgun er möguleg.

SKÓLASTEFNA

Telemakkusarskólana

bottom of page